Í áfanganum læra nemendur um forvarnir, sem birtast í formi heilsueflingar á öllum sviðum, líkamlegum, andlegum og félagslegum. Markmiðið er að fá nemendur til að átta sig á mikilvægi þess að grípa í taumana áður en í óefni er komið. Til þess að svo megi verða þurfa nemendur að líta sér nær, skoða sjálfa sig. Lögð er rík áhersla á að virkja nemendur og hafa innlagnir stuttar. Þannig fá þeir tækifæri til að láta ljós sitt skína og bera dálitla ábyrgð á hvernig til tekst. Þar af leiðandi fer kennsla fram á óhefðbundinn hátt. Nemendur eru þjálfaðir til að beita gagnrýnni hugsun, horfa lengra en reynsla þeirra nær, taka ákvarðanir á jákvæðan hátt og þroska þannig hegðun þeirra. Í umræðum er reynt að undirstrika frelsi hvers einstaklings til að hafa sjálf­stæðar skoðanir og tilfinningar.
Í áfanganum er lögð áhersla á að efla lífsleikni. Nemendur eiga að efla færni sína í tjá­skiptum og öðlast þjálfun í rökræðum. Nemendur þurfa að ná valdi á framkomu í ræðu­púlti, lestri og flutningi ólíkra texta. Nemendur fá þjálfun í sjálfstæðum vinnu­brögðum, s.s. heimildaleit á netinu og verkefnavinnu, bæði í hópum og sem ein­staklingar.

Fjallað er um námsframboð, námsleiðir og þjónustu í skólanum þannig að nemendur verði færir um að nýta sér það sem skólinn hefur uppá að bjóða. Einnig eru vinnubrögð í námi tekin fyrir, nemendur skoða eigin námsvenjur og vinna að því að styrkja sig sem námsmenn. Lögð er áhersla á að nemendur kynni hugðarefni sín fyrir öðrum á formlegan og óformlegan hátt.