Í áfanganum kynnast nemendur auðlindum Íslands og samanburði við auðlindir annarra landa. Stefnt er að því að þeir geti flokkað auðlindir, þekki helstu orkugjafa í heiminum og kynni sér hagnýtingu jarðefna og orkugjafa. Nemendur kynni sér landbúnað, fiskveiðar og iðnað (framleiðsluatvinnuvegi). Þeir kynni sér einnig flutninga í lofti, á láði og í legi. Þeir kanni umfang verslunar í heiminum og þekki helstu viðskiptabandalög heims og geri sér grein fyrir muninum á verslun og sam­göngum í þróunarlöndum og iðnríkjum. Einnig þekki þeir kenningar um efnahags­þróun. Nemendur fá fræðslu um náttúruauðæfi, auðlindanýtingu, hagnýt jarðefni, orku­gjafa, orkunotkun. Þeir skoði framleiðsluatvinnuvegi, iðnað, samgöngur, verslun og þjónustu í iðnríkjum og þróunarlöndunum, viðskiptabandalög, umfang heims­verslunar, þróunarsamvinnu, kenningar um efnahagsþróun, vaxtarsvæði, kjarnasvæði og jaðarsvæði.