Í áfanganum þjálfast nemendur að lesa úr, búa til og notfæra sér ólík kort. Þeir kynnast undirstöðuatriðum í fjarkönnun og greiningu loftmynda, þjálfast í að reikna út mæli­kvarða, staðarákvarðanir og tímaútreikninga og geri sér grein fyrir merkingu hugtaka eins og landnýting, skipulag, auðlind og sjálfbær þróun. Þeir átti sig á því hvernig land er nýtt á Íslandi, þekki helstu gerðir og hlutverk skipulags og geti rætt álitamál er varða landnýtingu á ábyrgan hátt. Einnig geri þeir sér grein fyrir á hvað auðlindum efnahagslíf landsins byggist og kynnist dreifingu, samsetningu, vexti og hreyfingu fólksfjölda. Nemendur skilgreini og noti mikilvæg lýð- eða líffræðileg hugtök, þekki kenningar um mannfjöldabreytingar og fólksflutninga. Nemendur læra að lesa kort og túlka þau. Nemendur kynnast helstu álitamálum um landnýtingu, svæðaskipulag, auðlindanýtingu, vatnsafl, forsendur ferðaþjónustu, þróun fólksfjölda, búsetumynstur, aldursskiptingu, fæðingar- og dánartíðni, fólksfjöldaspár, landnýtingu og búsetu, eyðileggingu vistkerfa og orsakir fólksflutninga.