Í áfanganum er stefnt að því að nemendur fái trausta þekkingu á tiltekinni íþróttagrein og eru búnir undir þjálfunar- og leiðbeinendastörf hjá íþróttahreyfingunni, í frjálsri félagastarfsemi eða í frístunda­starfi. Gert er ráð fyrir að hægt sé að kenna íþróttagrein sem ekki er að framan talin en sérstakur áhugi er á eða hentar vel aðstæðum eða einstökum skólum. Vísað er til áfangalýsingar hjá viðkom­andi sérsambandi innan ÍSÍ um nánari útfærslu. Áfanginn samsvarar sérgreinahluta þjálfara 1 í fræðslukerfi ÍSÍ. Dæmi um viðfangsefni: Skíði, skautar, júdó, tennis, borðtennis, karate, glíma, golf, ólympískar lyftingar, skvass, þríþraut, fjallganga og hjólreiðar.