Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur læri um starfsemi hjarta og blóð­rás­ar­kerfis, lungna og taugakerfis og áhrif markvissrar þjálfunar á þessi líffæra­kerfi. Einnig verður fjallað um gerð vöðvaþráða og áhrif mismunandi þjálfunar á starfsemi þeirra. Sérstök áhersla verður lögð á að tengja lífeðlisfræði við íþrótta­iðkun. Í áfanganum verður fjallað um þol, kraft, hraða og liðleika. Farið verður yfir kannanir tengdar þrekþáttum. Komið er inn á tækni og tækniþjálfun íþróttamanna. Nemendur fræðast um skipulag þjálfunar íþróttamanna og mikilvægi mark­miðs­setningar í tengslum við áætlanagerð. Áfanginn er bæði bóklegur og verklegur.