Í áfanganum er farið í sögulegt ágrip rafrænnar háreyðingar og þróun varðandi raf­straum og tækni sem notuð er við hana. Nánar er farið yfir líffæra- og lífeðlisfræði hárs og húðar, auk húðsjúkdóma með tilliti til rafrænnar háreyðingar. Nemendur læra um uppbyggingu og eiginleika húðar, kirtla hennar og ónæmiskerfi, og innkirtla­starfsemi líkamans. Þeir þekkja uppbyggingu hárs og hárslíðurs. Þeir þekkja algeng­ustu húðsjúkdóma með tilliti til rafrænnar háreyðingar, með- og mótrök fyrir meðferð.

Farið er í ólíkar aðferðir við rafræna háreyðingu. Lögð er áhersla á að nemendur tileinki sér rétt vinnubrögð við verkþætti og hafi þekkingu á undirbúningi og eftirmeðferð húðar. Í áfanganum læra nemendur um mikilvægi hreinlætis og sótthreinsunar húðar, nála, áhalda og tækja. Þeir kynnast notun nála við rafræna háreyðingu og geta borið saman kosti aðferðanna og galla.