Í áfanganum læra nemendur um strauma og stefnur í hönnun og tíðaranda frá árinu 1900 til dagsins í dag. Kynntar eru listastefnur og fjallað um helstu atburði tímabilsins sem höfðu áhrif á lifnaðarhætti fólks. Fjallað er um helstu hönnuði á tímabilinu, arkitekta, iðn- og fatahönnuði og ítarlega farið í hvernig klæðnaður og tíska breyttist með tilkomu tækninýjunga og fjöldaframleiðslu.

Nemendur læra einnig um sögu fatagerðar og fatahönnunar á Íslandi frá lokum 19. aldar til byrjun 21. aldar, greina áhrifavalda og forsendur sem stuðluðu að þróun og tilvist greinarinnar hér á landi. Fjallað er um hinn stórtæka iðnað tískutengdri framleiðslu á ullarfatnaði sem hafði áður fyrr verið ein af stærstu útflutningsgreinum íslensku þjóðarinnar. Einnig horft til þess sem er að gerast hjá íslenskum fatahönnuðum í dag og gerð grein fyrir að fatahönnun og fatagerð eru mikilvægur hluti af menningarsögu þjóðarinnar.

Nemendur vinna einstaklings- og hópverkefni og kynna fyrir samnemendum sínum og fara í vettvangsferðir í tengslum við námsefnið.