Áfanginn er þrískiptur. Í fyrsta hluta kynnast nemendur og læra að beita lögmálum myndbyggingar. Kennt er hvernig ólík form, línur, mynstur og áferð hafa áhrif á jafnvægi myndflatarins og áhrif myndheildarinnar. Nemendur kynnast helstu hugtökum myndbyggingar en þau eru jafnvægi, spenna, þungi, hrynjandi, flötur, samhverfa, mynstur andstæður. Í öðrum hluta læra nemendur grundvallaratriði í litafræði og um meðferð lita, kanna samspil lita og áhrif þeirra almennt en einnig með tilliti til áferðar og eðlis ólíkra efna. Helstu hugtök eru frádræg litablöndun, viðlæg litablöndun, litatónn, mettun, gagnsæi, birtustig, andstæðulitir, skyldir litir, heitir litir, kaldir litir, sálræn áhrif lita, merking lita, áferð efna, viðkoma, gljái, endurkast, mýkt, rakadrægni, viðloðun, varanleiki, sveigjanleiki, styrkur, þanþol, hitaþol og meðfærileiki. Nemendur læra hvernig litur og myndbygging spila saman. Í þriðja hluta vinna nemendur verkefni þar sem þeir kynnast starfsgrundvelli og markaðsmöguleikum myndlistar­manna og hönnuða. Heimavinna tekur til frjálsari sköpunar þar sem nemendur nýta sér það sem þeir hafa lært um myndbyggingu og litafræði. Í áfanganum er efnt til samkeppni um logo þar sem fengist er við fyrstu skref táknfræði og ímyndarsköpunar og áhrifamáttur lita og forms í auglýsingum kannaður.