Verkefnið The Butler sem er samstarfsverkefni E-labsins í FB, Nýsköpunarmiðstöðvar og Reykjavíkurborgar er komið í aðra umferð keppni um nýsköpunarverkefni á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Norðulandaráðs (Nordic Innovation Center). Alls voru 428 umsóknir sendar inn og 52 þeirra komust í aðra umferð.

The Butler

Kerfið hjálpar eldra fólki og fötluðum að búa lengur sjálfstætt við meira öryggi. Það er hægt að tengja það öryggisvöktun og nánustu aðstandendum og láta það gera viðvart þegar hætta steðjar að. Kerfið byggir á „vitrænum“ rafeindaskynjurum sem skynja er aðstæður breytast á heimili notandans eða ef hann liggur á gólfi.

Skynjararnir verða á vatns- og rafmagnsinntaki sem skynja ef notkun þess verður óeðlileg, vatn flæðir óheft svo og ef flæðir upp úr potti á eldavélarhellu. Þá getur kerfið fylgst með því ef kaldavatnsrennsli fellur niður sem bendir til þess að eitthvað hafi hent íbúann. Kerfið getur einnig skynjað staðsetningu notanda í íbúðinni og með því hvort hann hefur legið lengi í rúmi, en það getur bent til skyndilegra veikinda hans. Það mun fylgjast með loftgæðum í íbúðinni þar með talið reyk.

Allir skynjarar kerfisins verða þráðlaust tengdir við samskiptagátt sem vaktar alla skynjarana, safnar upplýsingum saman og lætur vita ef eitthvað bregður út af. Kerfið verður veftengt með aðgang að GSM farsímakerfi til vara rofni fastlínusímtenging. Kerfið verður með opnum hugbúnaði sem gerir framleiðendum auðvelt um vik að framleiða búnað sem getur tengst því.