Umgengnisreglur

Allir í skólanum skulu sýna hver öðrum virðingu. Sýna ber háttvísi og prúðmennsku hvar sem komið er fram í nafni skólans.

  1. Nemendur virði vinnufrið í tímum og hlýði verkstjórn kennarans.
  2. Nemendur virði eigur skólans, gangi snyrtilega um og skilji ekki eftir rusl.
  3. Neysla matar og drykkja er óheimil í tímum og á bókasafni, en heimilt að hafa vatn í lokuðum brúsa.
  4. Reykingar og öll meðhöndlun tóbaks er óheimil í skólanum og á skólalóð. Þar með talið hvers konar munn- eða neftóbak, svo og gufu- eða rafsígarettur.
  5. Óheimilt er að neyta, meðhöndla eða vera undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna í skólanum og á samkomum eða í ferðalögum á vegum skólans.
  6. Bílastæði nemenda eru á stæðinu milli skólans og íþróttahúss. Virða skal sérmerkt stæði fatlaðra og starfsfólks.
  7. Myndataka, kvikmyndataka og hljóðupptökur í skólanum eru óheimilar í kennslu­stundum án skýrrar heimildar kennara.
  8. Nemendum ber að hlýða fyrirmælum kennara og starfsfólks skólans.

Gengið er út frá því að nemendur og kennarar komi fram hvert við annað af gagnkvæmri virðingu og mæti stundvíslega í allar kennslustundir. Í kennslustundum ber nemendum að virða verkstjórn kennarans og forðast að trufla vinnufriðinn. Þannig er notkun síma og tölva í kennslustundum einungis heimil með leyfi kennara. Neysla og meðhöndlun tóbaks og vímu­efna af öllu tagi er stranglega bönnuð í skólanum, á skólalóðinni og á skemmtunum á vegum skólans.

Réttur kennara til að halda vinnufrið í kennslustundum

Kennarar skólans eru verkstjórar og skal ríkja vinnufriður í kennslustundum. Kennari getur gripið til viðeigandi ráðstafana til að tryggja vinnufrið, t.d. að færa nemendur í sundur, vísa nemendum út úr kennslustund og banna truflandi tæki (farsíma, tónhlöður, fartölvur og fl.).

Nemanda, sem veldur ítrekað truflun í kennslustund, skal vísað til aðstoðarskólameistara. Nemandi, sem fengið hefur áminningu vegna ónæðis eða óróa, getur átt á hættu að vera vísað úr viðkomandi áfanga, breyti hann ekki hegðun sinni.

Viðurlög vegna brota

Brjóti nemandi reglur skólans ber að veita honum munnlega áminningu, við alvarlegt brot veitir skóla-meistari skriflega áminningu og við ítrekað eða mjög gróft brot er nemanda vísað úr skóla.

Þegar ágreiningsmál eða brot á skólareglum koma upp skal aðstoðarskólameistari skrá atburðinn, ræða við málsaðila og upplýsa jafnframt forráðamenn ólögráða nemenda um málið. Aðstoðarskólameistari vísar eftir atvikum máli áfram til skólameistara. Skrifleg áminning skýrir frá tilefni, viðurlögum og andmælarétti nemanda.